*

föstudagur, 15. nóvember 2019
Innlent 8. mars 2018 07:30

Skoða að deildaskipta VR

Forysta VR skoðar að skipta félaginu upp í deildir. Formaður VR segir allsherjarverkföll vera nánast úrelt fyrirbrigði.

Gunnar Dofri Ólafsson
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR á formannafundi ASÍ, en þar kaus hann gegn því að samningar myndu standa.
Haraldur Guðjónsson

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, tekur áhyggjur sem stjórnendur tæknifyrirtækja viðra í Viðskiptablaði dagsins og undanfarna daga alvarlega. „Ég held að þetta snúist líka um þá spurningu sem sérfræðingarnir spyrja um hvort þeir eigi yfir höfuð heima í stéttarfélögum. Þarna [í grein Ólafs] var um allsherjarverkfall að ræða og alveg rétt að á þessum tímapunkti var allsherjarverkfalli hótað,“ segir Ragnar Þór.

„Ég var þá í stjórn VR og las á samfélagsmiðlum að fólk í efri tekjuhópum og sérsfræðistörfum sá engan tilgang með verkfalli. Þá vaknar að sjálfsögðu þessi spurning hjá fólki hvort það vilji vera í stéttarfélagi ef það er að fara í verkfall sem það hefur ekki trú á," segir Ragnar Þór. „Þetta er stór spurning og fyrir okkar stéttarfélag er mikil áskorun að vera með svona stórt félag með félagsmenn sem eru allt frá því að vera afgreiðslufólk á kassa upp í hámenntaða sérfræðing,“ segir Ragnar Þór.

Allsherjarverkföll úrelt fyrirbrigði

„Mín skoðun er að allsherjarverkföll eins og þessi sem voru boðuð 2015 eru nánast úrelt fyrirbrigði. Það má færa rök fyrir að samsetning stéttarfélaga hafi breyst gríðarlega á undanförnum árum og áratugum. Verkfallsvopnið er mjög mikilvægt og við eigum mjög stóra verkfallssjóði en þeir duga mjög skammt fyrir 36.000 félagsmenn. Þess vegna er mjög skynsamlegra að ef til átaka kemur að gera það í minni hópum og skærum í samstarfi við fleiri félög því það skilar meiri árangri," segir Ragnar Þór.

Hann segir marga setja samasemmerki milli átaka og verkfalla í kjarabaráttu og að atkvæði VR með því að segja upp kjarasamningum ASÍ og SA í síðustu viku hafi verið atkvæði með verkföllum. „Samningar VR hafa verið lausir í á annan tug skipta síðustu 30 árin. Við fórum síðast í verkfall í apríl 1988. Það er ekki samasemmerki milli þess að segja upp kjarasamningum og að farið sé í verkfall. Þetta þýðir einfaldlega að við förum aftur að samningaborðinu,“ segir Ragnar Þór og segir jafnframt að það hefði mátt koma skýrar fram hjá VR. „Það er líka okkar hlutverk sem verkalýðsfélags að upplýsa um að lausir kjarasamningar þýða ekki endilega verkföll.“

Hann nefnir í þessu samhengi þá spurningu um hvort rétt sé að skipta VR upp í deildir þannig að ákveðnir hópar innan félagsins geti farið í verkfall. „Ég skil þessa umræðu mjög vel og við þurfum að taka hana. Þess vegna höfum við verið að skoða að deildaskipta félaginu.“ Ragnar Þór segir jafnframt að ekki hafi borið á úrsögnum sérfræðinga úr VR, sem hefur aldrei haft fleiri félagsmenn innan sinna raða. „Við fylgjumst mjög vel með þessu. Á síðasta ári varð metaukning í félaginu, sem stafar auðvitað líka af efnahagsástandinu. En við höfum heyrt af þessum áhyggjum og fylgjumst með félagsaðild með tilliti til menntunar og tekna. Það er ekkert sem bendir til þess að það séu meiri sveiflur á félagsaðild en verið hefur,“ segir Ragnar Þór.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.