Starfshópur Bjarna Benediktssonar fjármála- og efnahagsráðherra um efnahagsleg áhrif sóttvarna telur að breytt fyrirkomulag á landamæraskimun vegna Covid 19 veirufaraldursins geti verið forsenda umtalsverðs efnahagsbata hér á landi á næsta ári.

Hópurinn hefur skoðað þrjár tillögur, annars vegar frá Samtökum ferðaþjónustunnar og Icelandair (A og B) og hins vegar tillögu sem varð til upp úr samtali við sérfræðinga í faraldursfræðum, sem byggja á því að gera ferðamönnum auðveldar kleift að ferðast til landsins.

Tillögurnar sem greint var frá eru eftirfarandi:

  • A. Vottorð frá heimalandi: Tvöfaldri skimun verði hliðrað fyrir ferðamenn þannig að fyrri skimun eigi sér stað í heimalandi ferðamannsins en seinni skimun eigi sér stað við komu á landamærum Íslands.
  • B. Ferðamannasmitgát: Núverandi fyrirkomulag á landamæraskimun verði óbreytt nema að því leyti að ferðamenn fái að fara í svokallaða ferðamannasmitgát í stað sóttkvíar á milli fyrri og seinni skimunar.
  • C. Þreföld skimun: Tillögur A og B taki báðar gildi, þ.e. þreföld landamæraskimun þar sem fyrsta skimun á sér stað í heimalandi ferðamanns, önnur skimun við komu til landsins og þriðja skimun fimm dögum síðar. Ferðamannasmitgát gildi milli annarrar og þriðju skimunar.

Í tilkynningu um málið á vef Stjórnarráðsins er talað um að mikið sé í húfi að auðvelda ferðalög milli landa án þess þó að samfélagslegum hag af árangursríkum sóttvörnum sé kastað fyrir róða. Því sé mikilvægt að greina áhættu af útbreiðslu farsóttarinnar og leggja mat á hvað teljist ásættanlegt áður en ákvörðun er tekin um slakari aðgerðir.

Miðað við mat Icelandair á áhrifum þessara tillagna á fjölda flugfarþega er það niðurstaða starfshópsins að fjöldi erlendra ferðamanna árið 2021 gæti orðið á bilinu 370-800 þúsund að gefnum tilteknum forsendum.

Til samanburðar er talið að nærri 100 þúsund ferðamenn myndu sækja landið heim árið 2021 ef núverandi fyrirkomulag yrði á landamærum allt árið. Breytingar til enn frekari slökunar sóttvarnaaðgerða á næsta ári, t.d. á grundvelli bóluefnis, myndu leiða til fleiri erlendra ferðamanna.

Starfshópurinn vann einnig mat á þjóðhagslegum áhrifum tillagnanna. Þar kemur m.a. fram að atvinnuleysi gæti orðið á bilinu 0,5-1,5 prósentustigum lægra á næsta ári samkvæmt tillögunum en ef óbreyttar aðgerðir gilda á landamærum út árið 2021.