Til skoðunar er að hverfa frá úthlutun aflaheimilda í núverandi formi og taka þess í stað upp nýtingarsamninga við útgerðarfyrirtæki til tiltekins árafjölda. Þetta segir Kristján Skarphéðinsson, ráðuneytisstjóri í atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu, í samtali við Morgunblaðið í dag.

Þar kemur fram að vinna starfshóps um breytingar á fiskveiðistjórnunarkerfinu sé langt komin. Breytingar verða gerðar á veiðigjöldum en það þarf að gerast áður en nýtt fiskveiðiár hefst þann 1. september.

Kristján kvaðst í samtali við Morgunblaðið ekki hafa upplýsingar um hvort veiðigjöldin hækki eða lækki en vísaði til þeirrar áherslu í stjórnarsáttmálanum að sérstaka veiðigjaldið taki mið af afkomu einstakra útgerða.