Nýherji skoðar nú möguleikann á aðkomu erlendra fjárfesta að dótturfélagi sínu Tempo. Þetta er meðal þess sem kemur fram í ávarpi Ívars Kristjánssonar, stjórnarformanns Nýherja sem hægt er að nálgast í ársskýrslu fyrirtækisins .

Finnur Oddsson, forstjóri Nýherja, segir í samtali við Viðskiptablaðið að fyrirtækið líti fyrst og fremst til þess að vinna með einhverjum sem getur bætt verulega við þeirra þekkingu og hjálpað Tempo að ná meiri árangri þar. Hann tekur jafnframt fram að fyrr gæti verið betra, þegar litið er til tímarammans, en að þetta verði ekki gert fyrr en þau séu tilbúin. Undirbúningur að söluferli gæti tekið nokkurn tíma.

Þar kemur fram að rekstur og staða dótturfélaga samstæðunnar hafi styrkst talsvert. Þá er bent á að tekjuvöxtur Tempo er kraftmikill sem fyrr og að hingað til hafa þau eingöngu boðið Tempo-lausnir þeim sem nota JIRA verkbeiðnakerfið frá Atlassian. Hins vegar hefur nú verið fjárfest verulega í tæknilegum innviðum sem munu gera þeim kleift að bjóða lausnir óháð Atlassian.

„Það má því gera ráð fyrir að til viðbótar tekjuvexti sem tengist Atlassian muni þessi fjárfesting skapa ný markaðstækifæri þegar fram líða stundir,“ segir í ávarpinu. Til að auka virði hluthafa Nýherja og til að nýta þessu nýju markaðstækifæri, hefur Nýherji skoðað mögulega aðkomu erlendra fjárfesta að Tempo. Mat á fýsileika þess hvort og hvernig af því verður hefur verið unnið í samstarfi við AGC Partners LLC í Boston. Að sögn Ívars miðar vinnunni vel en þó liggur niðurstaðan ekki fyrir.

Tekjur Tempo á árinu 2016 námu 13 milljónum dollara og jukust um 40% milli ára. Hjá fyrirtækinu starfa nú 95 manns, þar af tæplega 20 í Montreal og San Fransisco.