Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að skoðað verði að aðskilja einkabanka- og fjárfestingarbankastarfsemi í landinu.

Repúblikanaflokkurinn hefur á stefnuskrá sinni endurupptöku svokallaðra Glass-Steagall laga sem voru í gildi í Bandaríkjunum frá því um kreppuna miklu þangað til fyrir um 20 árum, og hefur Trump Bandaríkjaforseti tekið undir þá stefnu.

„Sumt fólk ... vill fara aftur í gamla gerði, ekki satt? Svo við ætlum að líta á það,“ sagði Trump án þess að fara nánar út í það að því er CNN Money greinir frá.

Vilja ganga mislangt í reglum

Hins vegar eru uppi deildar meiningar um hvað það myndi þýða og hve langt slíkar reglur ættu að ganga, og sagði talsmaður Hvíta hússins að um yrði að ræða 21. útgáfu Glass-Steagall laganna.

Tala sumir sem nálægir eru forsetanum um hærri kínamúra innan bankanna milli mismunandi hluta starfseminnar, eða aðrar reglur sem ganga mislangt.

Á efri deild þingsins hafa hins vegar öldungadeildarþingmennirnir Elizabeth Warren og John McCain, sett fram lagafrumvarp sem myndi stöðva það algerlega að bankar gætu bæði starfað í einkabankaþjónustu og við fjárfestingarbankastarfsemi.