Slitastjórn Glitnis hefur samið við nokkurn fjölda fyrrum starfsmanna Glitnis um riftun kaupaukagreiðslna sem starfsmennirnir fengu fyrir fall bankans. Steinunn Guðbjartsdóttir, formaður slitastjórnar Glitnis, vill ekki gefa upp hversu mörgum einstaklingum hafa verið send bréf þess efnis að greiðslunum verði rift.

Einhver málanna hafa farið fyrir dómstóla, þar sem bankinn krefst riftunar. Bónusgreiðslur, sem voru veittar skömmu fyrir fall bankans, eru sérstaklega skoðaðar. Oft byggðust greiðslurnar á ákveðnum árangri í rekstri bankans. Afstaða slitastjórnar er þá sú að slíkur árangur hafi ekki náðst.