Benedikt Jóhannesson fjármálaráðherra segir að það komi sér ekki á óvart að heyra að skattbyrði landsmanna hafi aukist, en í skýrslu ASÍ sem birtist í gær kemur fram að svo hafi verið fyrir alla tekjuhópa á árabilinu 1998 til 2016. Í skýrslunni segir jafnframt að skattbyrðin, sem er skilgreind sem greiddur tekjuskattur og útsvar að frádregnum persónuafslætti og viðbættum barna- og húsnæðisbótum, vaxta og húsaleigubótum, hafi aukist mest fyrir þá tekjulægstu.

Bendir Benedikt á að í sumar hafi tvær nefndir fengið það verkefni að skoða annars vegar samspil bóta og tekjuskatts og hins vegar skattkerfi sem hefði breytilegan persónuafslátt að því er RÚV segir frá.

Kerfið má ekki letja fólk til að vinna

„Þetta eru hugmyndir sem eiga rætur að rekja til tillagna frá AGS og samráðsvettvangi um aukna hagsæld. Þær hafa aldrei verið fullunnar og ég tel mikilvægt að við sjáum það svart á hvítu hvaða áhrif þær hafa á alla tekjuhópa vegna þess að það er augljóst að ef við ætlum að skipta skattbyrðinni öðruvísi þá verða ekki allir kátir með það, sérstaklega þeir sem myndu þá borga hærri skatta“ segir Benedikt

„Mér finnst þessar tillögur að mörgu leyti áhugaverðar, þær myndu ná ákveðnum markmiðum sem væru í átt til aukinnar tekjujöfnunar og Ísland, sem hefur verið hvað fremst í jöfnum tekjum á heimsvísu - að minnsta kosti innan OECD, myndi ganga skrefinu lengra. En við verðum líka að passa að þessi kerfi verði ekki letjandi þannig að það borgi sig ekki fyrir fólk að vinna eða afla sér meiri tekna.“

Hækkandi laun draga úr millifærslum

Ástæður þess að skattbyrðin eins og ASÍ skilgreinir hana hafi aukist mest meðal þeirra tekjulægri segir skýrslan vera þá að persónuafsláttur hafi ekki fylgt launaþróun, sem hafi mest áhrif á lægri launin.

Á sama tíma hafi stuðningur vaxtabótakerfisins minnkað verulega, en vegna tekju og eignaskerðinga, og þá væntanlega því tekjur og eignir einstaklinga hafi aukist á tímabilinu, hafi þeim fækkað sem þurftu að fá greiddar vaxtabætur.

Stuðningur í auknum mæli til þeirra allra tekjulægstu

Skýrslan segir jafnframt að íslenska barnabótakerfið sé veikt og dragi eingöngu úr skattbyrði, eins og hún er skilgreind, einstæðra foreldra og allra tekjulægstu paranna. Væntanlega vegna hækkandi launa segir skýrslan að húsaleigubótakerfið hafi þróast með sama hætti og önnur tilfærslukerfi og því dregið úr stuðningi við launafólk á leigumarkaði.

Með nýju húsnæðisbótakerfi sé komin að mati skýrslunnar nokkur bót á hag láglauna einstaklinga og einstæðra foreldra á leigumarkaði, meðan láglauna pör fái eftir sem áður lítinn eða engan stuðning vegna leigukostnaðar.