Hugmyndir um breytingar á persónuafslætti eru meðal þess sem komið hefur til tals í samtölum viðsemjenda á vinnumarkaði við stjórnvöld um leiðir til þess að koma kjaraviðræðum í gang. Greint er frá þessu í Morgunblaðinu .

Þar kemur fram að komið hafi til tals að persónuafsláttur verði hækkaður um tiltekna upphæð og einnig yrði mögulega gerð sú breyting á skattkerfinu að afslátturinn færi stiglækkandi eftir því sem tekjur færu hækkandi. Þetta hafi hins vegar ekki fengist staðfest frá ríkisstjórninni.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir í samtali við Morgunblaðið að menn hafi velt vöngum yfir því með hvaða hætti breytingar á persónuafslætti gætu gagnast í kjaraviðræðunum en það sé aftur á móti allt mjög óformað.

„Það er ekkert launungarmál að það hefur alltaf verið mjög mikil tregða hjá stjórnvöldum að ráðast í miklar breytingar á persónuafslætti því það er dýr aðgerð fyrir ríkissjóð,“ segir Þorsteinn.