Ekki er búið að taka ákvörðun um að endurskoða bann við notkun farsíma í flugvélum Icelandair. Þetta segir Guðjón Arngrímsson, upplýsingafulltrúi flugfélagsins, í samtali við Morgunblaðið. Um miðjan næsta mánuð mun bandaríska flugmálastofnuninn taka ákvörðun um það hvort leyfa eigi notkun farsíma í farþegaflugi innan bandarískrar lofthelgi. Leyfilegt er að nota snjallsíma og fartölvur þar í landi en ekki tala í farsíma. Í Morgunblaðinu segir að bannið nái jafnframt til annarrar notkunar raftækja til samskipta utan flugvélarinnar. Flugmálayfirvöld ytra telji slík samskipti fela í sér mun öflugri tíðnisvið en önnur notkun raftækja.

Guðjón segir í samtali við Morgunblaðið Icelandair hafa í fyrra samið við fyrirtækið Row 44 um uppsetningu WiFi- búnaðar í vélum sínum sem geri flugfarþegum í vélum Icelandair kleift að vera nettengdir um borð. Með slíkri tengingu og réttu tækjunum opnist sá tæknilegi möguleiki að vera í talsambandi þótt fólk sé á hraðferð í þotu yfir úthafinu.