Til skoðunar er að hækka gistináttaskattinn úr 100 krónum í 300 krónur. Nýta á auknar tekjur af skattinum til að fjármagna umhverfisbætur á ferðamannastöðum víða um landið; en þeir eru farnir að láta á sjá vegna mikils álags. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.

Í samtali við Morgunblaðið segir Sigrún Magnúsdóttir, umhverfis- og auðlindaráðherra að hækkun gistináttagjaldsins sé til skoðunar, en að henni hugnast einnig að ferðamenn sem komi til landsins greiði komugjöld. Hún segir að það þurfi meira fjármagn til að gæta þess að aukning ferðamanna valdi ekki óafturkræfum skemmdum á náttúru og minjum og að stóra spurningin sé hvernig nýta megi landið án þess að ganga á höfuðstól þess.