Íslandsbanki stefnir að því að kanna hvort að gögnum sem var lekið varðandi verðbréfaviðskipti Markúsar Sigurbjörnssonar og annarra dómara, komi frá Íslandsbanka. Edda Hermannsdóttir, samskiptastjóri Íslandsbanka staðfestir þetta í samtali við Viðskiptablaðið.

„Þetta verður að sjálfsögðu skoðað. Þetta er þó á frumstigi,“ segir Edda.

„Það er enginn ástæða til þess að áætla að gögnin komi frá okkur eins og sakir standa, það er ekkert sem bendir til þess“ segir samskiptastjóri Íslandsbanka jafnframt.

Verðbréfaviðskipti dómara

Eins og Viðskiptablaðið hefur áður fjallað um þá stundaði Markús Sigurbjörnsson, forseti Hæstaréttar og dómari við Hæstarétt, umfangsmikil hlutabréfaviðskipti stuttu fyrir efnahagsáfallið. Markús átti meðal annars í sjóðum sem keyptu og seldu hlutabréf í stærstu fyrirtækjum landsins, þar á meðal í íslensku viðskiptabönkunum. Markús hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem hann ber af sér sakir um meint vanhæfi.

Í frétt Stöðvar 2 var tekið fram að hún hefði undir höndum gögn sem kæmu frá slitastjórn Glitnis.

Einnig hefur komið fram að talið sé að fimm dómarar hafi átt í viðskiptum með hlutabréf í íslensku bönkunum fyrir hrunið 2008, en meðal þeirra eru þeir Markús Sigurbjörnsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.