Stjórnendur norska flugfélagsins Norwegian bera víurnar í pólska ríkisflugfélagið LOT. Fram kemur í norska dagblaðinu Dagens Næringsliv í dag að Björn Kjos, stofnandi og forstjóri Norwegian, hafi um síðustu helgi fundað með Jacek Rostowski, fjármálaráðherra Póllands. Blaðið segir að ríkið sé að einkavæða ríkisflugfélagið að stærstum hluta og sé ekki útilokað að Kjos leggi fram kauptilboð í reksturinn. Gangi áætlanir eftir mun pólska ríkið væntanlega halda eftir 51% hlut í LOT fyrsta kastið en losa sig við eignarhlutinn með öllu síðar meir.

Dagens Næringsliv segir rekstur LOT ekki hafa gengið sem skyldi upp á síðkastið og ætti Kjos því að geta tryggt sér félagið fyrir minni pening en ella.