Bandaríski flugvélaframleiðandinn Boeing útilokar ekki að framleiða enn lengri útgáfu af 747 breiðþotunni, en þó sé langt í að sú vél lítil dagsins ljós.

Á vef Flighglobal er haft eftir Elizabeth Lund, yfirmanni framleiðslu á Boeing 747 vélinni, að vissulega kunni sá dagur að koma að vélin verði lengd enn frekar.

Lund ávarpaði fjölmiðlamenn í fyrsta farþegaflugi hinnar nýju 747-8, sem er ný og bættari útgáfa af 747 vélinni. Það var þýska flugfélagið Lufthansa sem fékk fyrstu vélina afhenta og fór jómfrúarflug hennar fram þann 1. júní sl. þegar flogið var frá Frankfurt til Washington.

„Öðru hvoru þá leikum við okkur á teikniborðinu með mögulegar útfærslur á hinum ýmsu vélum,“ sagði Lund aðspurð um frekar þróun á 747 og hvort til greina kæmi að framleiða stærri útgáfu af henni.

„Þær útfærslur eru þó ekki endilega eitthvað sem gerist. Nú er forgangsmál hjá okkur að klára framleiðslu á 787-9, skoða frekar framleiðslu á 787-10 , klára hönnun á 737 Max og ákveða hvað við viljum gera með 777 vélina. Þannig að 747 vélin þarf að bíða um senn en þetta er þó í skoðun.“

Sem fyrr segir er 747-8 vélin nýrri og bættari útgáfa af 747 vélum félagsins. Hingað til hefur 747-400 vélin verið stærsta vél sem framleidd er hjá Boeing. Við hönnun á 747-8 var félin lengd um tæpa 6 metra og farþegasætum fjölgað um 50 þannig að hún getur í dag setið 467 farþega þegar mest er.

Þá kemur fram í frétt Flighglobal að árið 1996 hafi Beoing undirbúið framleiðslu á vél sem kalla átti 747-600. Hún átti að vera 14 metrum lengri en 747-400 en aldrei varð af framleiðslu hennar.