Íslendingar og Færeyingar ætla að kanna möguleikanna á því að leggja sæstreng á milli landanna. Steingrímur J. Sigfússon, atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra, og Johan Dahl, viðskipta- og iðnaðarráðherra Færeyja, undurrituðu viljayfirlýsingu um málið á fundi Norðurlandaráðs í Helsinki í Finnlandi í dag.

Fram kemur í tilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu að um það bil 60% af allri raforkuframleiðslu í Færeyjum og nánast öll húshitun byggi á olíu. Í fyrra hafi heildarraforkuframleiðsla í Færeyjum numið 280 GWst. en á Íslandi um 17.000 GWst. Áætlanir gera ráð fyrir að raforkuþörfin árið 2050 verði allt að 900 GWst. og í þeim áætlunum er gert ráð fyrir rafhitun húsnæðis.

Þá segir í tilkynningunni að í fyrra hafi Færeyingar sett sér það að markmiði að öll rafoka komi frá endurnýjanlegum orkugjöfum árið 2050. Til að ná því er lögð sérstök áhersla á uppbyggingu vindorkuvera, en einnig á vatnsorku sem nýtt verði til að jafna út álag í kerfinu.

Í ljósi aukinnar áherslu á notkun endurnýjanlegra orkugjafa og þess að tækniframfarir varðandi sæstrengi hafa verið mjög örar hefur verið ákveðið að endurmeta stöðuna og munu Orkustofnun og Jarðfengi, ásamt orkufyrirtækjum í báðum löndum, koma að því endurmati. Stefnt er að því að niðurstöður liggi fyrir lok næsta árs.