Í dag samþykkti borgarráð Reykjavíkur að skipaður yrði starfshópur sem á að skoða þann möguleika að koma á laggirnar hjólaleigukerfi í Reykjavík, eftir atvikum á höfuðborgarsvæðinu. Þetta kemur fram í frétt á vef Reykjavíkurborgar .

Hjólaleigur eða Bike Sharing Systems hafa verið mjög vinsælar í fjölmörgum borgum erlendis þar sem lögð er áhersla á vistvænar samgöngur. Þær veita fólki aðgang að hjóli fyrir ferðir sínar innan borgarmarkanna, á fyrirfram tilgreindum stöðum. Notendur geta tekið hjól á einum stað og skilað því af sér á öðrum.

Skipaður starfshópur á að afla upplýsinga um hjólaleigukerfi í erlendum borgum og skoða hvernig komið var slíkum kerfum á laggirnar í viðkomandi borgum. þ.m.t.; Aðkomu borgaryfirvalda að verkefninu, fjármögnun, rekstri og viðhaldi, staðsetningu, greiðslumáta og annað fyrirkomulag. Samstarf við einkaaðiðla um fjármögnun eða beina þátttöku í verkefninu. Skilgreining markhópa og samspil við aðra ferðamáta.

Hópurinn mun svo greina hvernig mismunandi hjólaleigukerfi gætu hentað í Reykjavík og eftir atvikum á höfuðborgarsvæðinu og gera tillögur að fyrirkomulagi slíks kerfis. Auk þess mun hópurinn setja fram drög að kostnaðaráætlun og eða útboðsfyrirkomulagi hjólaleigukerfis í Reykjavík. Búist er við að hópurinn skili niðurstöðum fyrir 1. nóvember næstkomandi.