MMR hefur birt niðurstöður úr könnun þar sem athuguð var farsímanotkun Íslendinga undir stýri síðustu tólf mánuði. Frá maímánuði 2010 hefur þeim fækkað sem tala í síma undir stýri en þeim sem skoða internetið undir stýri hefur hins vegar fjölgað.

Þeim fækkaði nokkuð sem sögðust hafa notað farsíma undir stýri fyrir símtöl án handfrjáls búnaðar. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 64,1% hafa talað í farsíma undir stýri án handfrjáls búnaðar, borið saman við 71% í maí 2010.

Þeir sem sögðust hafa notað farsíma undir stýri til að fara á internetið, t.d. til að skoða fréttasíður eða samfélagsmiðla, voru nú 10% samanborið við 3,5% í maí 2010 og hefur því farið ört fjölgandi.

Þeim fækkar hins vegar einnig sem sögðust hafa notað farsíma undir stýri til að skrifa/lesa sms, tölvupóst eða önnur skilaboð. Af þeim sem tóku afstöðu nú sögðust 21,1% hafa notað farsíma undir stýri til þess að skrifa/lesa skilaboð, borið saman við 26,4% í maí 2010.