Borgaryfirvöld í London hafa komið á fót tilraunum til að kanna möguleikann á því að innleiða notkun sjálfkeyrandi bíla í gatnakerfi borgarinnar. Kynning var haldin á sjálfkeyrandi bílum í Greenwich í suðausturhluta London í dag en þar var m.a. viðstaddur Vince Cable, viðskiptaráðherra Bretlands, sem hældi bílunum óspart. Áætlanir liggja fyrir um að ákvæði um sjálfkeyrandi bíla verði komið fyrir í samgöngulög þar á landi innan nokkurra ára.

Vaxandi áhugi er á sjálfkeyrandi bílum innan bílaiðnaðarins eftir að tæknirisinn Google kynnti til sögunnar sína útgáfu af slíkri bifreið fyrir nokkrum árum. Í kjölfarið hafa bílaframleiðendur á borð við Audi, Tesla og Mercedes Benz kynnt hugmyndaútgáfur af sjálfkeyrandi bílum. Skiptar skoðanir eru á kostum og göllum slíkra bíla en stuðningsmönnum þeirra er tíðrætt um að slysatíðni muni minnka umtalsvert komist þeir í almenna notkun.

Nánar er fjallað um málið á vef Financial Times .