Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra telur að ekki þurfi að breyta lögum til að kaupa gögn um skattsvik Íslendinga erlendis. Til greina kemur að veita þeim sem svíkja undan skatti erlendis einskonar sakaruppgjöf, gegn því að þeir skili því sem þeir skutu undan. Kemur þetta fram í frétt Ríkisútvarpsins .

Embætti skattrannsóknarstjóra fékk nýlega send sýnishorn af gögnum sem sögð eru benda til þess að hundruð Íslendinga hafi gerst sek um skattsvik í skattaskjólum.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra hefur haft málið til skoðunar um nokkurt skeið. Hann segir í samtali við RÚV að hann hafi fundað með skattrannsóknarstjóra og ríkisskattstjóra vegna málsins og að þeirri spurningu hafi m.a. verið velt upp hvort lagaheimildir þurfi fyrir slíkt. „Við erum engu að síður að velta fyrir okkur að koma með frumvarp sem gæti leitt í lög ákveðið „amnesty“" ákvæði og samspil af því að skattrannsóknarstjóri hefði stuðning til þess að sækja þau gögn sem hann telur nauðsynleg til þess að sinna sínu starfi.“