Möguleikinn á samningum við flugþjóna utan Flugfreyjufélags Íslands (FFÍ) er nú til skoðunar í kjaradeilu Icelandair og flugþjóna samkvæmt fréttum Morgunblaðsins og Markaðarins nú í morgun.

Í frétt Markaðarins er haft eftir Jóni Karli Ólafssyni fyrrverandi forstjóra Icelandair Group að afar ólíklegt sé að forgangsréttarákvæði um störf hjá flugfélaginu í samningi þess við FFÍ standist félagafrelsi, og því hljóti þetta að vera einn af þeim valkostum sem til skoðunar sé.

Í frétt Morgunblaðsins er haft eftir ónefndum heimildum að komið hafi til tals að stofnað verði nýtt stéttarfélag sem „ekki styðji stefnu samninganefndar“ FFÍ, og samið við það.

Icelandair hefur staðið í ströngu í samningaviðræðum við flugstéttirnar að undanförnu, en í ljósi erfiðrar stöðu félagsins eru nýir kjarasamningar sagðir forsenda þess að 30 milljarða króna hlutafjárútboð nú á föstudag gangi eftir.

Útboðinu er ætlað að tryggja lausafjárstöðu félagsins meðan á heimsfaraldrinum varir, og er aftur forsenda beinnar ríkisaðstoðar, sem til stendur að veita en ekki hefur verið útfærð nánar.