Matvælastofnun fór í eftirlit hjá Arctic Sea Farm á laugardag í kjölfar tilkynningar fyrirtækisins um gat á sjókví með regnbogasilungi í Dýrafirði. Búið er að loka gatinu en ekki er að svo stöddu vitað hve margir fiskar hafa sloppið. Ljóst er að sá regnbogasilungur sem slapp í umhverfið síðastliðið sumar kom ekki úr þessari sjókví og eru þær slysasleppingar áfram til rannsóknar hjá stofnuninni. Þetta kemur fram í tilkynningu frá MAST.

Síðastliðinn laugardag fór eftirlitsmaður Matvælastofnunar að starfsstöð Arctic Sea Farm við Haukadalsbót í Dýrafirði en fyrirtækið hafði áður tilkynnt um gat á kví til Fiskistofu og Matvælastofnunar. Óljóst er hvenær og hvernig gatið myndaðist en líklegasta skýringin er sú að botnhringur og net hafi nuddast saman með þeim afleiðingum að núningsgat myndaðist á efri hluta þrengingar við botn kvíarinnar. Netið hefur verið lagfært og verður gatið stærðarmælt þegar kvíin verður tekin í land. Fyrirtækið hefur látið kafara yfirfara aðrar kvíar og búnaðinum verður öllum skipt út á þessu ári.

„Ekki er hægt að áætla hversu margir fiskar hafa sloppið fyrr en starfsmenn fyrirtækisins hafa lokið við slátrun úr kvínni en áætlað er að það verði nú í lok febrúar eða í byrjun mars. Um er að ræða geldan og sjúkdómalausan regnbogasilung sem er ekki fær um að fjölga sér í íslenskri náttúru,“ segir í tilkynningunni.

Einnig er vísað til þess að í tilkynningu frá Arctic Sea Farm hafi komið fram að töluverður fjöldi fiska gæti hafa sloppið og að þarna hefði mögulega fundist skýring á veiðum á regnbogasilungi á Vestfjörðum síðastliðið sumar. „Matvælastofnun útilokar að málin tengist og bendir í því ljósi á að flestir þeir fiskar sem veiddust af eftirlitsmanni Fiskistofu á Vestfjörðum síðasta sumar voru um hálft kíló að þyngd. Á sama tíma og þær veiðar stóðu yfir var fiskurinn í þeirri kví sem nú um ræðir um tvö kíló, en meðalþyngd fiska í kvínni er nú fjögur kíló,“ segir í tilkynningunni frá MAST.

„Rannsókn Matvælastofnunar á mögulegum sleppingum regnbogasilungs síðastliðið sumar er enn í gangi og liggja endanlegar niðurstöður ekki fyrir að svo stöddu. Fylgst verður með fjölda slátraðra regnbogasilunga úr þeim kvíum á Vestfjörðum sem ala fisk sambærilegan þeim sem Fiskistofa veiddi í eftirlitsferð sinni og mun framhald rannsóknarinnar byggja á þeim upplýsingum,“ segir að lokum.