RÚV ætlar að leggja aukna áherslu á innlenda framleiðslu, auglýsa allar nýjar stöður í framkvæmdastjórn lausar til umsókna og fjármálin endurskoðuð. Þar á meðal verða húsnæðismál RÚV endurskoðuð með mögulegri sölu á Útvarpshúsinu og flutningi í hentugra húsnæði. Núverandi framkvæmdastjórn sinnir störfum sínum áfram fram að þeim tíma að stöðurnar verða auglýstar. Koma á í veg fyrir hópuppsagnir vegna tapreksturs RÚV.

Innlend framleiðsla sett á oddinn

Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri fundaði með starfsfólki RÚV í Útvarpshúsinu í morgun um skipulagsbreytingar í skugga tapreksturs. Fram kom í máli hans að leggja á aukna áherslu á innihald og sköpun í miðlum RÚV með því að setja innlenda gæðaframleiðslu á oddinn. Nýtt skipulag og skipurit RÚV var samþykkt af stjórn RÚV í gær. Þar fær dagskrárhluti starfseminnar aukið vægi, stoðsvið eru sameinuð og töluverð breyting verður á hlutverkum sviða Ríkisútvarpsins.

Í tilkynningu frá RÚV kemur fram að í Magnús hafi sagt að vinna sé hafin við endurskoðun á húsnæðismálum Ríkisútvarpsins. Skoðaðir verða möguleikar á flutningum í hentugra húsnæði eða breytingum á núverandi húsnæði. Samhliða verður unnið að endurnýjun á tæknibúnaði RÚV til að gera miðlum þess betur kleift að mæta nýjum tíma. Fjármál fyrirtækisins verða sömuleiðis endurskoðuð en uppfærð rekstraráætlun Ríkisútvarpsins var kynnt á fundi stjórnar RÚV í gær.