Eygló Harðardóttir félags- og húsnæðismálaráðherra og Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra undirrituðu í dag yfirlýsingu þar sem þau lýsa yfir vilja til að skoða hvort að hægt sé að hvort unnt sé að stytta vinnuvikuna án launaskerðingar. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ráðuneytunum.

Tilraunaverkefninu er ætlað að ná fram gagnkvæmum ávinningi stofnana og starfsfólks en sérstaklega verður skoðað hvernig megi útfæra styttingu vinnutíma hjá ólíkum tegundum stofnana, þ. á m. hjá stofnunum þar sem unnin er vaktavinna.

Til að framkvæma verkefnið á að stofna starfshóp sem verður skipaður fulltrúum ráðuneyta, BSRB og mögulega fleiri aðilum sem kunna að koma að verkefninu. Starfshópurinn á að skilgreina nánar markmið og aðferðir við útfærslu verkefnisins, og hvernig meta skuli áhrif styttri vinnutíma á heilsu starfsfólks, vellíðan starfsfólks, starfsanda og þjónustu vinnustaðarins.

Lengd verkefnisins mun taka mið af nýundirrituðum kjarasamningum og gert er ráð fyrir því að starfshópurinn muni skila skýrslu um árangur verkefnisins a.m.k. sex mánuðum áður en þeir renna út.