Skodaverksmiðjurnar í Tékklandi sýna nú fullmótaðan Yeti jeppling á 79. alþjóðlegu bílasýningunni í Genf sem hefst á fimmtudag. Enn hefur ekki verið gefið upp í smáatriðum hvað bíllinn hefur upp á að bjóða, en í raun er um að ræða nettan fólksbíl með jeppaútliti.

Bíllinn er lítið breyttur frá frumútgáfunni sem kynnt var fyrir nokkrum árum. Hann býr yfir ýmsum eiginleikum jepplinga eins og mikla veghæð, enda á 17 tommu felgum, en á að vera mjög sparneytinn. Þá er hann býsna rúmgóður með allt að 1.760 lítra farangursrými fyrir aftan framsæti. Hann er líka fimm dyra sem gera alla umgengni eins og best verður á kosið. Ekki er enn vitað hver áform Skoda eru um markaðssetningu á Yeti, en það verður væntanlega upplýst í Genf á fimmtudaginn.