"Þar sem áður höfðu verið prósentutölur voru núna bara komin x. Og það kalla ég ekki tilboð, ef það eru engar tölur í því," segir Páll Halldórsson formaður samninganefndar Bandalags háskólamanna í samtali við Viðskiptablaðið. Fyrr í dag sendi BHM frá sér tilkynningu þess efnis að ríkið hafi dregið tilboð um launabreytingar til baka á fundi samninganefnda ríkisins og BHM í dag.

Spurður um það hvort fulltrúar samninganefndar ríkisins hafi ekki verið á staðnum til að útskýra tilboðið segir Páll: "Jújú, þeir voru þarna, en þeir bara treystu sér ekki til þess að gefa þessu neitt inntak."

Spurður um hvort það komi til greina af hálfu BHM að herða verkfallsaðgerðir segir Páll að það sé auðvitað eitthvað sem verið sé að skoða. Hins vegar séu verkfallsaðgerðirnar nú þegar mjög harðar í sjálfu sér. Ekki sé ljóst að það skapi mikið meiri þrýsting að herða þær úr því sem þær eru. Þegar sé orðið vandræðaástand, bæði á spítölum og í tengslum við verkfall starfsmanna sýslumannsembætta.