Við mat á líkamsástandi er gjarnan notaður BMI stuðull og mæling á fituhlutfalli af líkamsþyngd. Að sögn Teits Guðmundssonar, læknis og framkvæmdastjóra Heilsuverndar, eru slíkar mælingar einungis viðmið og líta þurfi til fleiri þátta þegar líkamsástand er metið.

Talað er um BMI stuðul þegar reiknað er hvort líkamsþyngd sé innan æskilegra marka með því að deila þyngd í kílóum með hæð í metrum í öðru veldi (kg/ m2). Samkvæmt viðmiðunarmörkum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar er um vannæringu að ræða ef BMI er undir 18,5, kjörþyngd ef BMI er á bilinu 18,5-24,9, ofþyngd ef BMI er á bilinu 25-29,9 og offitu ef stuðullinn er hærri.

„BMI-stuðullinn getur verið mjög skekktur t.d. ef einstaklingurinn er mjög lágvaxinn, mjög hávaxinn eða þrekinn. Þó er vitað að ef einstaklingur er kominn yfir 30 í BMI stuðli eru meiri líkur á hjarta- og æðasjúkdómum, sykursýki og öðrum lífsstílstengdum sjúkdómum. Það er ekki hættulegt að vera með nokkur aukakíló ef maður er undir 30 í BMI stuðli að því gefnu að maður hreyfi sig og haldi sér í formi,“ segir Teitur.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir liðnum tölublöð hér .