Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur nú skipað vinnuhóp til að skoða viðurkenningu vottorða erlendis frá um neikvæð próf við kórónuveirunni, sem og jafnvel vottorð um að viðkomandi hafi virkt mótefni, og samhliða því mögulegar breytingar á reglugerð um sóttkví, einangrun og sýnatöku á landamærunum vegna Covid 19 veirunnar.

Heimsfaraldur Covid 19 veirunnar sem veldur SARS-CoV-2 sjúkdómnum hefur valdið hruni í ferðaþjónustu víða um heim síðan Donald Trump Bandaríkjaforseti bannaði flug til lands síns frá Evrópu í upphafi marsmánaðar, eða fyrir hartnær sex mánuðum síðan.

Fyrstu fregnir af sjúkdómnum sem dreifst hefur úr sér frá Wuhan borg í Kína bárust í ársbyrjun þó stjórnvöld þar í landi hafi verið farin að reyna að kveða niður orðróm um sjúkdóminn fyrir áramót. Enn eru nokkrar takmarkanir í gildi í borginni en samt sem áður virðist staðan orðin það góð þar að þúsundir geta skemmtu sér saman í vatnsskemmtigarði í borginni á dögunum.

Þess má geta að löngu eftir að stjórnvöld í kommúnistaríkinu bönnuðu ferðalög innanlands til og frá héraðinu þar sem veiran lét fyrst á sér kræla var alþjóðlegt flug frá Wuhan borg áfram heimilt og þúsundir farþega komu meðal annars til Bandaríkjanna eftir að Kínastjórn hafi viðurkennt vandann sem veiran væri að valda í landinu.

Talið brýnt að ráðast í skoðun á viðurkenningu erlendra vottorða

Í skipunarbréfi ráðherrans til vinnuhópsins segir að talið sé brýnt að ráðast í skoðun á því hvort taka megi gild slík vottorð um nýleg neikvæð PCR-próf og jafnvel vottorð sem sýni fram á að einstaklingar hafi myndað mótefni fyrir SARS-CoV-2.

Jafnframt þurfi í framhaldinu að hefja skipulagða vinnu á því að kanna gagnkvæma viðurkenningu slíkra vottorða á milli landa og loks hefði hópurinn það hlutverk að leggja til við stjórnvöld slíka viðurkenningu eftir almennum reglum.

Samhliða þessari vinnu þurfi að yfirfara og gera nauðsynlegar breytingar á reglugerð um sóttkví og einangrun og sýnatöku við landamæri Íslands vegna Covid-19 að því er fram kemur á vef stjórnarráðsins .

Vinnuhópinn skipa:

  • Rögnvaldur G. Gunnarsson, fulltrúi heilbrigðisráðuneytisins, formaður
  • Guðrún Aspelund, fulltrúi sóttvarnalæknis
  • Jón Pétur Jónsson, fulltrúi ríkislögreglustjóra
  • María Mjöll Jónsdóttir, fulltrúi utanríkisráðuneytisins
  • Kjartan Ólafsson, fulltrúi dómsmálaráðuneytisins
  • Guðrún G. Gunnlaugsdóttir, fulltrúi Þjóðskrár Íslands