Skoda verksmiðjurnar í Tékklandi hafa nú opinberað meiri upplýsingar um hinn nýja Skoda Yeti jeppling sem sýndur er á bílasýningunni í Genf. Þar kemur fram að þetta er ekki bara framdrifinn fólksbíll með jeppaútliti eins og flestir hafa talið, heldur bæði með framhjóladrifi eingöngu og einnig með 4x4 drifi. Er hann sagður svar Skoda við kröfum um sparneytinn bíl til utanvegaaksturs.

Í boði verða tvær túrbó bensínvélar. Önnur er 1,2 lítra 77 kílóvött (kW) TSI sem eingöngu verður boðin í framhjóladrifnu útgáfuna. Þá er önnur 1,8 lítra TSI 118 kW bensínvél fyrir 4x4 bílinn. Þá verða þrjár dísilvélar í boði. Það er 2,0 lítra TDI CR 81 kW vél sem bæði er í boði fyrir framdrifsútgáfuna og 4x4 bílinn. Þá verður 2.0 lítra TDI CR sem er 103 kW í boði fyrir 4x4 bílinn og önnur 2,0 lítra TDI CR sem er 125 kW.

Þá má geta þess að bíllinn verður á 17 tommu felgum svo hann ætti að komast þokkalega yfir töluverðar ójöfnur.