*

miðvikudagur, 17. júlí 2019
Fjölmiðlapistlar 18. ágúst 2018 13:41

Skoðanir & heimildir

Fjölmiðlarýni fjallar um málfrelsið og heimildarvinnu fjölmiðla

Andrés Magnússon

Málfrelsið og hlutverk fjölmiðla var til umfjöllunar hér í liðinni viku, vegna þess að helstu félagsmiðlar ákváðu að setja bandarískan samsæriskenningasmið út af sakramentinu vegna hatursorðræðu.

Í Bretlandi varð um svipað leyti mikið írafár vegna greinar sem Boris Johnson, fyrrverandi utanríkisráðherra þar í landi, skrifaði um búrkubannið svonefnda í Danmörku. Hann lagðist alfarið gegn því og taldi það ekki samrýmast góðri og frjálslyndri lýðræðisvenju að ríkisvaldið væri að hlutast til um klæðaburð fólks almennt. Hins vegar kvaðst hann sjálfur telja búrkur og ámóta búninga óheppilega, jafnvel afkáralega, í samfélagi manna, þar sem fólk læsi ekki minna í svipbrigði fólks en orð þeirra og nefndi til samanburðar að sennilega yrði engum háskólanema umborið að koma til fyrirlestrar með skíðagrímu að hætti bankaræningja.

Óhætt er að segja að þessar skoðanir mæltust misjafnlega fyrir, margir voru Boris innilega sammála (þar á meðal ýmsir málsmetandi múslimar) en aðrir töldu að með þessu væri hann að smætta múslimakonur sem kysu að klæðast svo, vændu hann um fordóma, hann var krafinn um að draga orð sín til baka og innan Íhaldsflokksins var boðuð rannsókn á málinu. Dagblaðið Daily Telegraph var svo einnig harðlega gagnrýnt af sumum fyrir að hafa birt þessar voðalegu skoðanir.

Nú er það auðvitað svo að uppnámið átti sér að einhverju leyti pólitískar rætur. Lið Theresu May forsætisráðherra sá sér leik á borði til þess að veikja helsta keppinaut hennar og forysta Verkamannaflokksins sá kærkomið tækifæri til þess að draga athyglina frá vandræðum sínum vegna gyðingaandúðar, sem mikið hefur verið rætt um síðustu vikur.

Það er hins vegar rétt að staldra við þá ákefð sem fram kom um að Boris megi ekki hafa neinar slíkar skoðanir eða að minnsta kosti ekki að lýsa þeim opinberlega og að blaðið hafi ekki mátt birta þær, ekki aðeins vegna þess að sumum þættu þær bera vott um fordóma, heldur kannski fremur vegna þess að þær gætu valdið einhverjum sárindum.

Það er höfuðatriði í frjálsu þjóðfélagi að hver maður hafi rétt til þess að segja og útbreiða það sem honum býr í brjósti um þjóðmál og almannahag af hreinskilni. Líka þó svo það sé gert með ýkjum, af þráhyggju eða fyrir hleypidóma. Slík innlegg í þjóðmálaumræðuna eru réttmæt og það má ekki reyna að þagga þau niður. Og það er eitt af hlutverkum fjölmiðla að vera vettvangur fyrir hreinskiptin skoðanaskipti af því taginu. Því ef það má aðeins segja og birta það sem enginn er ósáttur við, þá eru öll skoðanaskipti úr sögunni. Málfrelsið líka. 

Finnist mönnum málflutningurinn fráleitur, þá er aðeins um tvennt að gera: Að andmæla honum eða láta hann sem vind um eyru þjóta. Ekki að láta þagga niður í honum.

***

Aðalfréttin í gær var vitaskuld um skuldabréfaútboð og fjárhagsstöðu flugfélagsins Wow. Og hún er enn frétt í dag, eins og sjá má af forsíðu Viðskiptablaðsins. Það er sjálfsagt óhætt að ljóstra upp um það að Viðskiptablaðið hafði þessa kynningu undir höndum og undirbjó fréttaflutning um hana í blaðinu í dag. Vitanlega hefði verið hægt að segja fréttina á vefnum fyrr, en það var ákveðið að liggja á henni fram að útgáfu til þess að gera henni betri skil. Það var gert þrátt fyrir að auðvitað væru nokkrar líkur á því að einhver keppinautanna hefði komist á snoðir um málið, eins og kom svo á daginn í gærmorgun. Það er hluti af þeim kostnaði, sem fylgir því að gefa út vikublað, að stundum missa menn af skúbbunum með þessum hætti.

Eftir að bæði Fréttablaðið og Morgunblaðið gerðu málið að aðalforsíðufréttum sínum í gærmorgun (og birtu á vefjum sínum upp úr kl. 5 um morguninn, líkt og tíðkast um helstu fréttir, ylvolgar úr prentvélum þeirra) var hins vegar ekki lengur eftir neinu að bíða, svo það var sögð stutt frétt um málið á vb.is. Þrátt fyrir að Viðskiptablaðið hefði umrædda kynningu á útboðinu við höndina og með eigin frétt í smíðum, var vitaskuld vitnað bæði í Fréttablaðið og Morgunblaðið, af því að þau „áttu“ fréttina.

Þessu var hins vegar öðru vísi farið hjá Ríkisútvarpinu. Þar skrifaði Jón Hákon Halldórsson frétt, sem var ótrúlega samstofna forsíðufrétt Fréttablaðsins, en jafnframt sagt að þetta hefði komið fram þar. Seinna var fréttinni hins vegar breytt, án þess að þess væri í nokkru getið, og látið nægja að segja að „þetta kæmi fram í drögum að fjárfestakynningu sem fréttastofa hefur undir höndum.“ Annað hins vegar látið standa óhaggað.

Það er eitthvað stórlega bogið við þau vinnubrögð. Ef RÚV var í alvöru með kynninguna, hvers vegna var sú stórfrétt ekki sögð í sjónvarpspfréttum kvöldið áður, nú eða á vefnum um kvöldið eða um nóttina? Ríkisútvarpið er eina fréttastofa landsins, sem er með sólarhringsvakt alla daga, svo það hefði verið vandalaust. Það reynir mjög á trúgirni manna að fréttastofan hafi verið með gögnin en ekki gert neitt með þau, fyrr en fréttin hafi verið skrifuð af fullkomnum sjálfsdáðum þarna í rauðabítið, einmitt rétt eftir að bæði Morgunblaðið og Fréttablaðið höfðu birt hana.

***

Annars má finna að fleiru í heimildavinnunni hjá fréttastofu RÚV. Í seinni sjónvarpsfréttum á þriðjudagskvöld sagði Milla Ósk Magnúsdóttir þá frétt að verkalýðsfélögin VR og BHM ætluðu í komandi kjarasamningum að berjast fyrir styttri vinnuviku og sporna gegn kulnun í starfi, sem nálgaðist það að vera faraldur. Rætt var við formenn félaganna, en formaður VR lýsti öllum að óvörum þeirri skoðun að kulnun væri birtingarmynd þess að eitthvað stórkostlega mikið væri að í samfélaginu. 

Gott og vel, það er sjálfsagt að segja frá þeim áhyggjum. En hitt er verra — ef þetta er svona stórkostlegt vandamál —  að fréttamaðurinn spurðist ekkert fyrir um hvort fyrir lægju einhver gögn, sem styddu þessa skoðun. Því annars eru þetta aðeins skoðanir fólks, sem tæplega má telja óvilhallar eða óháðar heimildir.

Að þessu verður að gæta, því eins og við höfum nýleg dæmi um, hafa kjaraviðræður að miklu leyti færst út af samningaborðinu og inn í fjölmiðla. Þeir verða að gæta þess að láta ekki notfæra sig í slíku áróðursstríði.

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is