Fjölmiðlakóngurinn Robert Murdoch er sagður skoða kaup á bandarísku dagblöðunum Los Angeles og Chicago Tribune. Blöðin eru í eigu útgáfufélagsins Tribune Co., sem er í greiðslustöðvun samkvæmt bandarískum gjaldþrotalögum. Reiknað er með að dagblöðin verði seld um áramótin. Gangi kaupin eftir fara blöðin undir fjölmiðlasamsteypuna News Corp.

Fjöldi risablaða eru í eigu News Corp. Þar á meðal eru Wall Street Journal og Times of London. Þá heyrir dagblaðið Sun sömuleiðis undir það. Breska dagblaðið News of the World var í eigu samsteypunnar. Því var hins vegar lokað þegar upp komst um símahleranir æðstu stjórnenda blaðsins og blaðamanna þess.

Í netútgáfu Los Angeles Times segir m.a., að með kaupum Rupert Murdoch á dagblöðunum muni fjölmiðlaveldi hans ná undir sig lykilmörkuðum vestanhafs. Talsverð tengsl eru á milli Tribune Co og News Corp en Tribune dreifiri m.a. efni í síðarnefnda félagsins. Þá sér The Los Angeles Times um prentun á Wall Street Journal í nokkrum borgum í Bandaríkjunum.