*

fimmtudagur, 6. maí 2021
Fólk 28. apríl 2019 19:31

Skoðar kaup íslenskra kvenna

Katla Hrund Karlsdóttir er nýr viðskiptastjóri hjá H:N Markaðssamskiptum.

Sveinn Ólafur Melsted
Í frítíma sínum þykir Kötlu skemmtilegast að ferðast erlendis með fjölskyldunni.
Haraldur Guðjónsson

Katla Hrund Karlsdóttir, nýr viðskiptastjóri hjá H:N Markaðssamskiptum, kveðst vera mjög ánægð í nýja starfinu. „Verkefnin sem ég er að sinna eru ólík og af mismunandi stærðargráðu. Fjölbreytileikinn er mikill, reynslan dýrmæt og starfið skemmtilegt."

Áður en Katla hóf störf hjá H:N Markaðssamskiptum, stundaði hún meistaranám í markaðsfræði og alþjóðaviðskiptum við Háskóla Íslands. Samhliða meistaranámi starfaði hún sem sjálfstætt starfandi markaðsráðgjafi, þar sem hún tók að sér fjölbreytt verkefni í að markaðssetja allt frá snyrtivörum til búlluborgara í sex mismunandi löndum.

Katla, sem er með BS gráðu í sálfræði, segir að sálfræðin hafi verið góður grunnur fyrir markaðsfræðina, enda séu þar á ferð náskyldar fræðigreinar sem skarist á ýmsum sviðum. „Við sem störfum á þessu sviði erum í raun alltaf að greina þarfir og óskir viðskiptavina hjá ólíkum fyrirtækjum. Rannsóknir sýna að persónuleiki einstaklinga spáir mun betur fyrir kaupákvörðun einstaklinga heldur en lýðfræðibreytur. Þú getur búið í sömu götu og átt jafn mörg börn og Jón Jónsson nágranni, en þið gætuð ekki verið ólíkari týpur og því kauphegðunin alls ekki sambærileg - og með nútíma tækni getur maður miðað markaðsefni að einstaklingum eftir ansi þröngum afmörkuðum breytum sem þú telur einkenna þinn markhóp. Ég var nýverið að ljúka við meistararannsóknina mína þar sem ég kannaði tengsl persónuleika og kaup-ákvörðunarstíls íslenskra kvenna og var svo lánsöm að fá 1.700 íslenskar konur til þess að taka þátt."

Í frítíma sínum eyðir Katla flestum stundum í faðmi fjölskyldunnar. Kærasti hennar heitir Sigurður Halldór Bjarnason og starfar hann sem framkvæmdastjóri hjá móðurfélagi Hamborgarabúllu Tómasar. Saman eiga þau soninn Kára sem er tveggja ára, en fjölskyldan býr saman í Setberginu í Hafnarfirði.

Helsta áhugamál Kötlu eru ferðalög með fjölskyldunni. „Við fjölskyldan reynum að búa okkur til tíma til þess að ferðast. Okkur þykir mjög skemmtilegt að heimsækja og uppgötva nýjar og skemmtilegar borgir. Við erum mjög mikið í þessum styttri ferðum og höfum heimsótt Berlín nokkrum sinnum undanfarin misseri og er sú borg í uppáhaldi hjá okkur. Hamborgarabúlla Tómasar er staðsett víða um heim og höfum við ferðast mikið til þeirra borga þar sem búllustaðirnir eru staðsettir."

Þá hefur Katla einnig mikinn áhuga á innanhússhönnun og hefur hún í nokkur skipti tekið þátt í því að taka íbúðir og sumarbústað í gegn, fyrir vini og vandamenn. „Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á innanhússhönnun og mér þykir mjög skemmtilegt að taka þátt í endurbótum á heimilum."