„Þessi ummæli eru athyglisverð. Samkeppniseftirlitið mun skoða hvort í þeim felist vísbendingar um brot olíufélaganna á samkeppnislögum,“ segir Páll Gunnar Pálsson, forstjóri Samkeppniseftirlitsins.

Hermann Guðmundsson, forstjóri N1, segir í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í morgun, eldsneytisverð geta verið lægra hér á landi. Ekkert olíufélag hafi hins vegar burði til að lækka verðið nema N1. Ástæðan fyrir því að verðið er ekki lægra er sú að hin olíufélögin eru mun skuldsettari en N1 og geti ekki lækkað verð sitt. Hann bendir á að olíufélögin fari af þessum sökum ekki í verðstríð enda geti afleiðingarnar orðið afdrifaríkar.

„Það myndi vara mest í 4-6 mánuði og þá yrðu 1-2 söluaðilar gjaldþrota - og eftir stæðu 1-2. Það er væntanlega ekki staða sem neytendur eru spenntir fyrir.“

Páll Gunnar segir í samtali við vb.is Samkeppniseftirlitið fylgjast með olíumarkaðnum. Undanfarið hafi ekki komið neinar skýrar vísbendingar um brot olíufélaganna á samkeppnislögum.