Stjórnendur í verslunargeiranum eru þeir sem ákveðnast benda á tilteknar ógnir í garð reksturs síns, samkvæmt stjórnendakönnun MMR og Viðskiptablaðsins.

Ekki þarf að koma á óvart að þeir hafa miklar áhyggjur af samdrætti í innlendri neyslu, 66,7% stjórnenda í verslun, smásölu sem heildsölu, nefndu það.

Veiking krónunnar veldur þeim sömuleiðis miklum áhyggjum, en 54,4% stjórnenda í verslun nefndu hana sem aðsteðjandi ógn.

Þá vekur athygli að 48,2% þeirra nefnir óheilbrigt samkeppnisumhverfi og er þar vafalaust vísað til reksturs stórra verslanakeðja í skjóli bankanna.

Ítarlega er greint frá niðurstöðum stjórnendakönnunar MMR og Viðskiptablaðsins í 12 blaðsíðna sérblaði sem fylgir nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.