Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kveðst mjög ánægður með þátttöku í hlutafjárútboði Íslandsbanka, en hluthafar verða 24 þúsund við skráningu. Um er að ræða stærsta frumútboð í Íslandssögunni en eftirspurn í útboðinu nam 486 milljörðum króna en heildarandsöluvirði útboðsins, að því gefnu að valréttir verði nýttir, er 55,3 milljarðar króna.

„Með því að hanna útboðið þannig að lágmarksboð væri 50 þúsund krónur og því uppleggi að skerða ekki boð undir einni milljón, hefur okkur tekist að vekja áhuga almennings. Þátttakan að þessu sinni fór fram úr mínum væntingum og mér þykir alveg sérstaklega ánægjulegt hvernig til tókst. Það er tvennt sem mér þykir standa upp úr, annars vegar þessi mikla þátttaka almennings og hins vegar sú mikilvæga viðurkenning sem felst í því að stórir erlendir fjárfestar sýni íslenska fjármálakerfinu áhuga," segir Bjarni.

Lagt hafi verið upp með að tryggja gagnsæi í ferlinu og að eignarhald yrði dreift. „Það skiptir máli að skapa traust á ferlinu öllu og við lögðum því ríka áherslu á gagnsæi og dreift eignarhald. Það að skerða ekki tilboð upp að milljón dregur úr möguleikum okkar til þess að mæta áhuga innlendra og erlendra fjárfesta en það er fórnarkostnaður sem ég tel þess virði að taka á sig svo rýma megi fyrir almenningi. Úr varð stærsta almenningshlutafélag landsins."

Borið hefur á gagnrýni vegna skorts á greiningaraðilum sem standa utan ferlisins. Aðspurður um þá gagnrýni segist Bjarni reikna með því að farið verði yfir málin þegar ferlið er afstaðið og kallað eftir sjónarmiðum um það sem betur hefði mátt fara. „En í öllum aðalatriðum þykir mér útboðið hafa tekist gríðarlega vel. Ég skynja ekki annað en að það sé almenn ánægja með það hvernig staðið var að málum."

Bjarni segir þetta vel heppnaða útboð auka á bjartsýni hans um að mögulegt verði að losa um allan eignarhlut ríkisins í bankanum. „Í mínum huga ætti að skoða það á næsta ári. Ef aðstæður eru áfram hagfelldar ætti ekkert að koma í veg fyrir að við getum losað frekar um eignarhlut ríkisins í bankanum. Það verður auðveldara nú eftir að við höfum skráð bankann og þessi mikli áhugi í nýafstöðnu útboði eykur mér bjartsýni um að það sé vel raunhæft."

Mikil þörf fyrir að dýpka markaðinn

„Það hefur verið mikil þörf fyrir því að dýpka markaðinn. Við getum ekki byggt hlutabréfamarkaðinn á Íslandi á meirihlutaeigu lífeyrissjóðanna eingöngu. Þátttaka almennings var meiri hér á árum áður og er að taka við sér. Við sjáum það í nýlegum vel heppnuðum útboðum og nú kemur Íslandsbanki og trompar þau fyrri og ég tel það mjög mikilvægt," segir Bjarni.

Þá segir hann það ekki síður mikilvægt að með þessu sé verið að koma á heilbrigðari eigendauppbyggingu í íslenska fjármálakerfinu. „Ríkið hefur ekkert með það að gera að vera allsráðandi á bankamarkaði. Við náum með þessu að draga úr áhættu fyrir ríkið af þessum rekstri. Aðrir aðilar eru betur til þess fallnir að taka rekstrarákvarðanir í bankakerfinu á meðan ríkið á að einbeita sér að því að setja regluverkið."

Brúa bilið í átt að sjálfbærum opinberum fjármálum

Bjarni bendir á að með sölu hlutarins losni um rúma 50 milljarða króna sem styðja við ríkið í lánastýringunni. „Við erum í miklum hallarekstri og það munar verulega um það fyrir okkur að þurfa ekki að taka lán fyrir öllu því sem að við erum að fjármagna, sem dæmi opinbera þjónustu og hinar ýmsu stuðningsaðgerðir. Þetta hjálpar okkur að brúa bilið í átt að sjálfbærum opinberum fjármálum. Þetta skiptir ofboðslega miklu máli því ef ríkið þarf að sækja of djúpt inn á íslenska skuldabréfamarkaðinn, þá mun það á endanum smitast út í hærri vexti fyrir alla."