"Orkumálin hafa verið að breytast mikið á tiltölulega stuttum tíma og þar eru loftslagsmálin lykildrifkrafturinn. Þegar öll ríki heims einblína á að leysa ákveðið vandamál, þá fleygir tækni og breytingum fram. Við hér á Íslandi þurfum að stíga inn í það og hugsa um það hvernig við getum nýtt okkur þessa nýju sviðsmynd," segir Halla Hrund Logadóttir orkumálastjóri, en hún tók við starfinu í sumar.

Halla er einn af stofnendum miðstöðvar Norðurslóða Harvard háskóla og sinnir enn kennslu þar í dag. Áður hefur Halla átt fjölbreyttan feril á sviði umhverfis-, orku- og alþjóðamála hér heima og erlendis. Orkumálin í víðara samhengi Halla hefur komið inn með nýjar áherslur innan Orkustofnunar og meðal annars sett á laggirnar nýtt svið.

„Við stofnuðum nýtt svið loftslagsbreytinga, nýsköpunar og orkuskipta, þar sem við erum að stíga inn í þetta breytta landslag og spyrja okkur að því hvernig við getum stutt stjórnvöld í þessum efnum og veitt þeim hvatningu, ráðgjöf og aðhald, meðal annars við að nýta tækifærin sem felast í því að klára orkuskiptin, sem felast í því metnaðarfulla markmiði stjórnvalda að Ísland verði olíulaust árið 2050."

Hún segir Orkustofnun leggja áherslu á að orkumálin verði skoðuð í víðara samhengi en áður.

„Undanfarin ár hefur umræða um orkumálin einskorðast mikið við orkuframleiðslu og stóriðju en orkan knýr allt okkar samfélag áfram og þræðir orkunnar liggja því inn í allt sem við gerum. Við viljum þannig horfa til þeirra tækifæra sem breytt landslag skapar fyrir aðrar atvinnugreinar, ekki síður en orkufrekan iðnað. Það felast mikil tækifæri í því ef við verðum til dæmis með grænasta landbúnaðinn og ferðaþjónustuna. Sú framtíðarsýn að verða fyrst til að ljúka orkuskiptum felur í sér raunveruleg verðmæti fyrir fjölmargar atvinnugreinar, þar sem við markaðssetjum vörur okkar til kúnna sem eru meðvitaðir um áskoranir loftslagsbreytinga og eru tilbúnir til að greiða meira fyrir vörurnar, sem er auðvitað nokkuð sem við viljum sjá sem útflutningsland. Það að ljúka orkuskiptunum væri jafnframt mikilvægasta framlag okkar til loftslagsmála á alþjóðavísu, vegna þess að heiminn vantar árangurssögu og fyrirmynd, að sjá að þetta sé hægt."

Nánar er rætt við Höllu í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .