Skattlagning á slitastjórnir bankanna þriggja er frumleg hugmynd og stórathyglisverð, að mati Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns VG og fyrrverandi fjármálaráðherra. Hann sagði á Alþingi í gær málið hafa verið skoðað skoðað á árunum 2009 og 2010 að setja skatt á þrotabú föllnu bankanna. Það hafi hins vegar ekki talist gerlegt, m.a. þar sem kröfuhafar eigi lögvarða kröfu á þau, og skattur af þeim sökum aldrei lagður á þau.

Eins og áður hefur komið fram er gert ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu sem Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra lagði fram á Alþingi í gær að bankaskattur á fjármálafyrirtæki í slitameðferð skili 11,3 milljörðum króna. Hingað til hafa slíkar stofnanir verið undanþegnar bankaskattinum.

„Þetta var skoðað og lagt til hliðar sem algerlega óframkvæmanlegt á árunum 2009 og 2010  vegna þess að skattaandlagið var ekki til,“ sagði Steingrímur pg bætti við að komist menn að því í dag að skattlagningin sé möguleg þá muni hann skoða það á ný.