Á meðan eldgosið í Eyjafjallajökli stóð yfir flutti Icelandair tengistöð sína tímabundið til Glasgow í Skotlandi. Félagið gæti þurft að grípa aftur til sambærilegra aðgerða ef stórt eldgos lokar Keflavíkurflugvelli um lengri eða skemmri tíma.

Samkvæmt heimildum Viðkiptablaðsins komu flugvellir í Noregi einnig til greina sem varatengistöðvar meðan á gosinu í Eyjafjallajökli stóð. Þá mun félagið hafa skoðað að fljúga til og frá Akureyri í stað Keflavíkur á meðan eldgos hefði áhrif á Keflavíkurflugvöll.

Sveinn Þórarinsson, sérfræðingur hjá Hagfræðideild Landsbankans, bendir á að í sögulegu samhengi hafi eldgos eingöngu haft jákvæð áhrif fyrir flugfélög á Íslandi í formi umfjöllunar um landið og aukins ferðamannastraums. Tiltölulega lítil og meðalstór gos á nokkurra ára fresti ættu til langs tíma að hafa sömu áhrif og Eyjafjallajökull og Holuhraun gerðu, það er að styðja við Ísland sem áningarstað fyrir ferðamenn.

Sveinn segir hins vegar að erfitt sé að meta áhrif stórs eldgoss á flugfélögin enda geta áhrif slíks goss verið mjög mismunandi bæði á landið og lofthelgina.

Sveinn bendir á að ef stórt eldgos myndi loka flugumferð á Íslandi myndi það hafa augljós neikvæð áhrif á rekstur Icelandair vegna seinkana, afbókana og niðurfelldra fluga. Upphæð þeirra áhrifa myndi ráðast af því hversu stóru svæði yrði lokað og í hversu langan tíma.

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð .