*

mánudagur, 18. nóvember 2019
Innlent 26. apríl 2019 17:22

Skoðuðu tölvupóst bankastjóra vegna RÚV

Seðlabankinn fann ekki upplýsingar um að starfsmenn bankans hafi veitt RÚV trúnaðarupplýsingar fyrir húsleit hjá Samherja.

Ritstjórn
Már Guðmundsson seðlabankastjóri eftir fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar í mars.
Haraldur Guðjónsson

Seðlabankinn fann ekki upplýsingar í sem benda til að starfsmenn bankans hafi veitt RÚV trúnaðarupplýsingar á fyrstu þrem mánuðum ársins 2012 í leit í tölvupóstum bankastjóra eða skjalasafni bankans. Þetta kemur fram í svari Seðlabankans við spurningum forsætisráðherra vegna Samherjamálsins og gjaldeyriseftirlits bankans.

Umboðsmaður Alþingis sagði frá því fyrr á þessu ári að honum hefði borist nýjar upplýsingar sem bentu til þess að starfsmenn Seðlabankans hafi veitt RÚV upplýsingar í aðdraganda húsleitar hjá skrifstofum Samherja 27. mars 2012. Starfsmenn RÚV voru mættir við skrifstofur Samherja áður en húsleitin hófst. 

Athygli vekur að 13 blaðsíður af 56 eru auðar en á vef stjórnarráðsins segir að auðkenni lögaðila og einstaklinga hafi verið afmáð auk þess hluta sem lúti almennt að greinargerð bankaráðs Seðlabanka Íslands um mál Samherja.

Í bréfi Seðlabankans, sem undirritað er af Má Guðmundssyni, seðlabankastjóri og Rannveigu Júníusdóttur, framkvæmdastjóragjaldeyriseftirlits Seðlabankans, segir að starfsmaður RÚV hafi afhent Seðlabankanum gögn þann 21. febrúar 2012 sem voru hluti rannsóknar í máli Samherja hf. og tengdra aðila. Þeir starfsmenn sem gætu mögulega vitnað til um móttöku gagnanna séu hins vegar hættir störfum hjá bankanum.

Þá hafi innri endurskoðun bankans kannað hvort gögn lægju fyrir innan Seðlabankans sem bentu tlI þess að yfirstjórn bankans hefði veitt eða tekið ákvörðun um að veita Ríkisútvarpinu upplýsingar um fyrirhugaða húsleit. Skoðuð voru afrit gagna í tölvupósthólfum bankastjóranna á tímabilinu 1.janúar 2012 til 31. mars 2012 og gögn í skjalakerfi bankans eða eftir atvikum gögn sem geymd voru í skjalageymslu bankans. „Ekkert hefur kornið fram í þeirri yfirferð sem styður við að Ríkisútvarpinu hafi verið veittar trúnaðarupplýsingar og að seðlabankastjóri eða aðstoðarseðlabankastjóri hafi haft um það vitneskju og hvað þá heimilað,“ segir í svari Seðlabankans. 

Ekki kemur fram í bréfinu hvort tölvupóstföng annarra starfsmanna en seðlabankastjóra hafi verið skoðuð.