*

þriðjudagur, 16. júlí 2019
Innlent 12. september 2018 19:00

Skoðunarferð á sjó og landi

Reykjavík Duck Tours hóf á dögunum ferðir á bæði sjó og landi um Reykjavík. Farartæki fyrirtækisins er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.

Ástgeir Ólafsson
Farartæki Reykjavík Duck Tours er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi.
Haraldur Guðjónsson

Ferðaþjónustufyrirtækið Reykjavík Duck Tours hóf nú í byrjun september afþreyingarferðir fyrir erlenda og innlenda ferðamenn þar sem bæði er keyrt og siglt um Reykjavík. Um er að ræða skoðunarferðir um götur borgarinnar og innri höfnina í Reykjavík um borð í sérsmíðuðu farartæki sem er bæði hópferðabíll og skip í einu tæki, svokallað láðs- og lagarfarartæki (e. amphibious vehicle) og er þetta fyrsta farartæki sinnar tegundar á Íslandi.

„Þetta er í raun og veru allsherjar skoðunarferð og upplifun á borginni sjálfri,“  segir Arnar Már Arnþórsson, framkvæmdastjóri og annar af stofnendum Reykjavík Duck Tours, en verkefnið er hugarfóstur hans og Tómasar Ingasonar sem er hinn stofnandi félagsins. Þeir búa báðir að áralangri reynslu úr ferðaþjónustu og hafa starfað fyrir mörg af stærstu ferðaþjónustufyrirtækjum landsins, meðal annars Icelandair, Bláa lónið, WOW air, Hertz og Reykjavík Excursions.

„Ferðin hefst við Hörpu og við keyrum í um 40 mínútur á landi og sýnum alla helstu staði í kjarna borgarinnar. Svo förum við út í sjó við Slippinn og siglum í um 20 mínútur um innri höfnina. Svo förum við á land og keyrum smá lokahring. Upplifun farþega er að þeir fá svolítið skemmtilegan vinkil af borginni. Þeir fá helstu sögur af helstu stöðum á sjó og landi og gott útsýni yfir borgina. Við teljum að við séum að veita fólki mjög öfluga ferð með lifandi leiðsögn,“ segir Arnar.

Töluvert ferli að baki

Arnar segir  að hugmyndin að verkefninu hafi kviknað árið 2012 en ferlið hafi í raun hafist árið 2015. „Þetta fór allt á fullt þá og eftir að hafa leitað vítt og breitt að framleiðendum sem gætu búið til svona farartæki fyrir okkur þá náðum við samningum við bandaríska fyrirtækið CAMI. Það fyrirtæki býr til farartæki sem kallast Hydra-Terra og farartækið okkar, Sæborg, er einmitt þeirrar tegundar. Eftir að hafa náð samningum við John keyptum við glænýjan Mercedes Atego vörubíl 2015 árgerð af Öskju sem var svo sendur til Bandaríkjanna,“ segir Arnar.

Að sögn Arnars hefur ferlið við að koma Reykjavík Duck Tours af stað tekið töluverðan tíma. „Smíðin í Bandaríkjunum tók eitt og hálft ár. Farartækið kom svo til Íslands í lok sumars 2017 og fór þá í standsetningu hjá Vélarás í Hafnarfirði. Umtalsverð vinna var þá eftir við að fullklára farartækið og uppfylla allar kröfur Samgöngustofu. Þeirri vinnu lauk nú 24. ágúst og fyrsta formlega ferðin var farinn 2. september síðastliðinn. Þetta ferli hefur krafist mikillar þrjósku til að klára það. Þegar við fórum fyrst á fund Samgöngustofu ráku menn upp stór augu og sögðu: Þið ætlið að gera hvað við þessa rútu? Síðan þá hafa um 20 manns hjá stofnuninni komið að verkefninu og tvær vettvangsferðir verið farnar til að taka út smíðina á tækinu. Nú er búið að votta farartækið sem bæði rútu og farþegaskip.“

Nánar má lesa um málið í Viðskiptablaðinu sem kemur út á morgun. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér. Meðal annars efnis í blaðinu er:

  • Umfjöllun um stöðu íslensku krónunnar. 
  • Viðtal við Olivar Luckett um hvalveiðar. 
  • Úttekt á stöðu fasteignafélaganna. 
  • Viðtal við Harald Þórðarson, forstjóra Fossa markaða. 
  • Umfjöllun um fall Lehman Brothers en 10 ár eru nú liðin frá því gjaldþroti.
  • Óðinn skrifar um WOW air og leka úr Stjórnarráðinu.
  • Huginn og Muninn eru á sínum stað. 
  • Týr fjallar um fjárlagafrumvarpið. 
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is