*

sunnudagur, 26. september 2021
Innlent 18. ágúst 2017 12:21

Skógur vex í holu íslenskra fræða

Sjálfsáður víðir, ösp og birki vex nú upp úr meira en fjögurra ára gamalli holunni þar sem Hús íslenskra fræða á að rísa.

Ritstjórn
Bessi Egilsson

Nú eru liðin næstum því fjögur og hálft ár síðan Katrín Jakobsdóttir, þáverandi mennta- og menningarmálaráðherra, tók fyrstu skóflustunguna að Húsi íslenskra fræða sem á að rísa við hlið Þjóðarbókhlöðunnar-Landsbókasafns Íslands.

Húsið sem á að hýsa starfsemi Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum og Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands er enn ekki risið, en þess í stað er risastór hola, sem kölluð hefur verið hola íslenskra fræða, sem grafin var eftir skóflustunguna 11. mars það ár.

Í holunni er nú að vaxa skógur, en glöggur vegfarandi tók eftir því að ofan í holunni er að vaxa víðir, ösp og birki sem virðist hafa sáð sér þar sjálfur eins og sést á meðfylgjandi mynd. Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir veitti á sínum tíma einungis fjármagn á fjárlögum til að grafa grunninn fyrir húsið, með loforðum um frekari fjárveitingar eftir kosningar.

Tæplega 4 milljarðar í verkefnið

Í heildina lofaði ríkisstjórn Vinstri grænna og Samfylkingar 800 milljónum króna í framkvæmdir við húsið sem hluta af fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknar sem tók við eftir kosningarnar 27. apríl 2013 sló framkvæmdina út af borðinu, en Alþingi þurfti að greiða verktaka 120 milljónir króna í skaðabætur vegna þessa.

Nú er hins vegar búið að setja 400 milljónir í byggingu hússins á ný á þessu ári og eiga framkvæmdir að hefjast í haust. Í fjármálaáætlun til ársins 2021 er gert ráð fyrir 3,7 milljörðum króna til verkefnisins.