*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Innlent 10. apríl 2017 12:35

Skökk samkeppni

Birna Einarsdóttir, bankastjóri Íslandsbanka, segir sérstakan bankaskatt lækka verð bankans um 40 milljarða króna, auk þess sem hann skekkir samkeppni.

Alexander F. Einarsson
Haraldur Guðjónsson

Birna Einarsdóttir var ráðin bankastjóri Íslandsbanka, sem þá hét Nýi Glitnir, í október 2008 eftir hrun íslenska bankakerfisins. Birna, sem er viðskiptafræðingur með MBA gráðu frá Háskólanum í Edinborg, hóf störf hjá forverum Íslandsbanka árið 1987 og sneri aftur til bankans árið 2004 eftir sex ára starfsferil hjá Royal Bank of Scotland.

Birna tók við starfi bankastjóra á miklum óvissutíma en hefur leitt Íslandsbanka í miklum uppgangi. Bankinn var fyrst í eigu slitabús Glitnis en rann í hendur íslenska ríkisins sem stöðugleikaframlag eftir samninga við kröfuhafa. Erfitt er að spá fyrir um framtíðina og Birna segir starfsmenn bankans aldrei hafa látið eignarhaldið trufla sig. Hún viðurkennir þó að henni þyki spennandi tilhugsun að koma bankanum aftur í einkaeigu.

Fjórföld skattbyrði

Stjórnarformaður Íslandsbanka hefur talað um umhverfi banka á Íslandi, t.d. um íþyngjandi skatta á borð við bankaskattinn. Nú er ljóst að áform um bankaskatt eru óbreytt, hvernig horfir það við þér?

„Það eru vonbrigði. Ríkið innheimtir þennan skatt sem gerir það í sjálfu sér að verkum að arðurinn verður minni, ríkið er í raun bara að ákveða með hvaða formi það fær rentur af bankanum. En það sem mér finnst sorglegast við það er að þetta skekkir samkeppnisstöðuna, sem mér finnst óásættanlegt. Ég lýsi því oft að þegar lífeyrissjóður getur boðið 3,6% verðtryggða vexti, þá myndum við þurfa að bjóða 4%, út af skattinum sem leggst á okkur. Það er ósanngjarnt og samkeppnin er skökk út af þessu. Við erum líka í samkeppni við erlenda aðila, sem eru með mjög stórt hlutfall af útlánum til fyrirtækja, og þeir eru ekki að borga slíka skatta. Ef við berum þetta saman við Skandinavíu, þá fara um 4% af arðseminni sem við erum að ná beint í skattlagningu á meðan skattlagning í nágrannalöndum er um 1%. Við erum því með fjórfalda skattbyrði miðað við þau lönd. Við höfum hingað til ekki sett þetta út í verðlagið og þess vegna rífur þetta í niðurstöðutölurnar og arðinn sem ríkið fær.“

Þegar kemur að því að reyna að selja bankana, eru þeir þá ekki álitlegri til sölu án þessara kvaða?

„Jú, við erum búin að reikna það út að það gæti verið allt að 40 milljarða króna verðmunur á bankanum miðað við að vera með bankaskatt og ekki. Það er í höndum yfirvalda að ákveða sig með hvaða hætti þau vilja ná þessu endurgjaldi af fjármálafyrirtækjum.“

Nánar er fjallað um málið í Viskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast eintak af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð. 

25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is