Gamlar bækur
Gamlar bækur
© BIG (VB MYND/BIG)
Skólabækur fyrir framhaldsskóla í verslunum á höfuðborgarsvæðinu hafa lækkað í verði milli ára um allt að 33% samkvæmt verðkönnun Alþýðusambands Íslands (ASÍ). Verð var kannað á 23 algengum kennslubókum sem framhaldskólanemar þurfa að kaupa. Verð bókanna hækkaði mest hjá Pennanum Eymundsson milli ára en lækkaði á sama tíma hjá Griffli, Office 1 og Iðnú. Verðmunur milli verslana hefur aukist á milli ára.

Mesta hækkun á milli ára var hjá Pennanum Eymundsson sem hefur hækkað verðið á 18 titlum af þeim 23 sem skoðaðir voru, en hækkunin var undir 10% í flestum tilvikum, en dæmi voru um allt að þriðjungs hækkun.

Mesta lækkun á milli ára, var hjá Office 1, en þar hafði verðið lækkað á 16 bókatitlunum af 17 sem fáanlegir voru og var lækkunin oftast á bilinu 10-20%. Griffill lækkaði hjá sér verð á 16 bókatitlum af 18 sem fáanlegir voru og var lækkunin oftast undir 10%. Bókabúðin Iðnú hefur lækkað verðið á 11 bókatitlum af 17 sem fáanlegir voru. Á sama tíma hefur verðið staðið í stað á flestum titlum hjá Bóksölu stúdenta.

Verðmunur á milli verslana hefur aukist á milli ára. Munur á hæsta og lægsta verði var oftast undir 25% í ágúst 2010, en í þessari könnun var verðmunurinn um 25-50%.

Kannað var verð í eftirtöldum verslunum:Bóksölu stúdenta Hringbraut, Pennanum Eymundsson Kringlunni, Office 1 Skeifunni, Griffli Skeifunni og Bókabúðinni Iðnú Brautarholti.

Niðurstöður könnunar má sjá hér.