*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Innlent 17. apríl 2014 17:10

Skólar sömdu um innflutning á prins póló

Lið HR náði ekki að verja toppsætið í alþjóðlegri keppni í samningatækni.

Ritstjórn
Lið viðskiptaháskólans í Varsjá.

Liði frá Háskólanum í Reykjavík tókst ekki að verja titil sinn í alþjóðlegri keppni í samningatækni (The Negotiation Challenge) sem haldin var í Reykjavík um síðustu helgi. Í ár var það Viðskiptaháskólinn í Varsjá (Warsaw School of Economics) sem sigraði en í öðru sæti var Háskólinn í Bonn.

Í úrslitunum sömdu liðin um innflutning á Prins Póló, skiptingu kostnaðar og hagnaðar, markaðsherferð og svo framvegis. Alls tóku 18 lið þátt í keppninni en tilgangur hennar er að veita nemendum í viðskiptum og lögum á háskólastigi þjálfun í flóknum samningaviðræðum sem munu bíða þeirra eftir útskrift.

Í fyrsta skiptið sem HR tók þátt hafnaði lið háskólans í öðru sæti, þar næst í þriðja sæti og í fyrra bar hann sigur úr býtum. Þar hafði lið HR betur en lið lagadeildar Harvard-háskóla.