Eigendur Menntaskólans Hraðbrautar ætla ekki að loka skólanum heldur leggja reksturinn af í bili að loknu skólaárinu. Reynt verður að aðstoða nemendur á fyrra námsári til að tryggja þeim vist í öðrum skólum. Eigendur skólans ætla að reyna að ná samkomulagi við yfirvöld um rekstur skólans til frambúðar.

Fram kemur í tilkynningu frá skólameistaranum Ólafi Hauki Johnsen að þegar skólanum var synjað um nýjan þjónustusamning var um aðför stjórnvalda að einkarekstri að ræða. Aðförin hafi heppnast og sé tjónið sem af því hljótist hjá nemendum, starfsmönnum og eigendum þungbært.

„Síðast en ekki síst er tjón þjóðfélagsins mikið,“ skrifar Ólafur og bendir á að Menntaskólinn útskrifi stúdenta á tveimur árum þegar meðalnámstími til stúdentsprófs í framhaldsskólum hér á landi er almennt 5,5 ár. Af þessum sökum er starfsævi þeirra nemenda lengri en í öðrum skólum. Þeir greiði skatta og skyldur til ríkisins því mun lengur en aðrir og fullyrt að enginn framhaldsskóli nálgist Hraðbraut hvað þjóðhagslega hagkvæmni starfseminnar varði.

Tóku hagnaðinn í arð

Samkvæmt greinargerð sem Ríkisendurskoðun vann fyrir Menntamálaráðuneytið haustið 2010 kom fram gagnrýni á 50 milljóna króna lán skólans til tengdra aðila, Ólafs og konu hans vegna byggingar skóla í Skotlandi. Stofnunin taldi fjárhagslegar forsendur fyrir áframhaldandi rekstri skólans því afar hæpnar að óbreyttum aðstæðum. Menntamálaráðuneytið sleit í kjölfarið samningum við skólann.

Þá er jafnframt gagnrýnt í skýrslu Ríkisendurskoðunar að eigendur skólans tóku sér 82 milljóna króna arð á árunum 2005 til 2009. Til samanburðar námu heildarframlög ríkissjóðs til skólans 936,1 milljón króna á árabilinu 2003 til 2009. Heildarafkoma skólans á sama tíma nam 86,4 milljónum króna. Ríkisendurskoðun taldi að þótt ekkert banni arðgreiðslur þá hafi skólinn ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að greiða arðinn.

Greinargerð Ríkisendurskoðunar