Óhreinsuðu skólpi hefur á ný verið sleppt út í sjó við deilustöð Veitna við Faxaskjól í vesturbæ Reykjavíkur. Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á sínum tíma hefur Orkuveita Reykjavíkur beðist velvirðingar á mengun sem þarna seytlaði út í fimm vikur samfleytt án þess að um það hafi verið tilkynnt.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sat á sínum tíma undir mikilli gagnrýni vegna þess að ekki var greint frá lekanum að fyrra bragði frá stjórnvöldum í borginni. Ástæðan fyrir lekanum var að ekki var notað ryðfrítt stál þegar skipt hafði verið um lokur, bæði þar og við Hörpu eins og Viðskiptablaðið greindi frá .

Nú lekur hins vegar skólp óhreinsað á ný út í sjóinn við Faxaskjól og mun svo verða fram á næstu helgi. Ástæðan er endurnýjun á undirstöðu dælubúnaðar sem er í dælustöðvunum, en hann var gangsettur fyrir um aldarfjórðungi. Verður unnið á vöktum allan sólarhringinn við framkvæmdirnar en almenningur er beðinn um að halda sig frá sem og að henda ekki óþarfa í salernin.