Viðgerð er lokið á neyðarloku skólpdælustöðvarinnar við Faxaskjól. Lokan var sett niður síðdegis í gær og virkni hennar virtist þá með ágætum segir í fréttatilkynningu frá Veitum, sem er félag í eigu Reykjavíkurborgar.

Hún var síðan prófuð og stillt enn betur á flóði og fjöru og lauk prófunum á henni seint í gærkvöldi. Þetta þýðir að búið er að stöðva lekann meðfram neyðarlokunni, sem glímt hefur verið við undanfarið og að reksturinn á dælustöðinni er kominn í eðlilegt horf.