*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Erlent 22. september 2014 13:18

Skömm af því að flytja

Sífellt fleiri bandarísk fyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar úr landi til að greiða lægri skatta.

Sæunn Gísladóttir

Sífellt fleiri bandarísk fyrirtæki festa kaup á erlendum fyrirtækum til að flytja höfuðstöðvar sínar úr landi. Þetta gera þau til að forðast háan skatt á fyrirtæki sem ríkir í Bandaríkjunum. Á meðal þeirra fyrirtækja sem hafa flutt höfuðstöðvar sínar á árinu er bananaframleiðandinn Chiquita sem hefur sameinast írska fyrirtækinu Fyffes. Þar að auki hafa nokkur fyrirtæki í heilbrigðisgeiranum flutt höfuðstöðvar sínar á árinu. Má þar nefna Medtronic sem keypti írska fyrirtækið Covidien og flutti höfuðstöðvar sínar til Írlands og bandaríska lyfjafyrirtækið AbbVie sem keypti breska lyfjafyrirtækið Shire og flutti höfuðstöðvar sínar til Bretlands.

Skömm af því að flytja

Í grein Washington Times um málið er bent á að brottflutningur fyrirtækja af skattalegum ástæðum geti haft skaðleg áhrif á ímynd fyrirtækisins. Það varð mikið hneyksli þegar upp komst að kaffihúsakeðjan Starbucks væri að nýta sér ýmsar lagaflækjur til að forðast að mestu leyti að borga skatta í Bretlandi, sem endaði með því að ýmsir viðskiptavinir sniðgengu fyrirtækið með þeim afleiðingum að samdráttur varð í sölu hjá Starbucks í fyrsta sinn í Bretlandi frá opnun fyrirtækisins þar. Önnur sambærileg vel þekkt fyrirtæki gætu þurft að súpa seyðið af því að neytendur gætu haft skoðun á skattamálum þeirra.

Stjórnmálamenn í Bandaríkjunum, sér í lagi demókratar, hafa talað mikið gegn brottflutningi bandarískra fyrirtækja. Obama hefur fordæmt fyrirtækin og kallað þau óþjóðrækin. Árið 2004 samþykkti bandaríska þingið lög sem fólu í sér að bandarísk fyrirtæki gætu ekki flutt starfsemi sína úr landi nema með því að festa kaup á og sameinast erlendu fyrirtæki. Það virðist þó ekki hafa dregið úr brottflutningi fyrirtækjanna sem nú nýta sér hvert tækifærið á eftir öðru til að festa kaup á evrópskum fyrirtækjum og færa höfuðstöðvar sínar yfir Atlantshafið. Vandamál bandaríska þingsins virðist liggja í því að repúblíkanar og demókratar eiga mjög erfitt með að ná sáttum um hvað gera skuli í málinu.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð.

Stikkorð: Starbucks