Bæjarráð Stykkishólms samþykkti á fundi sínum á dögunum að skora á Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra að sjá til þess að þau störf sem tengdust rannsóknarnefnd samgönguslysa á landsbyggðinni verði þar áfram. Skessuhorn greinir frá þessu.

Rannsóknarnefnd sjóslysa hefur í mörg ár verið með starfsstöð í Stykkishólmi, í húsnæði Flugmálastofnunarinnar, með tvo starfsmenn. Ráðuneyti hefur sagt upp leigu á húsnæðinu og stefnir í að rannsóknarnefnd sjóslysa ljúki starfsemi í Stykkishólmi í októbermánuði næstkomandi. Flytjist þá í sameiginlegt húsnæði samgöngunefndar sem nú er unnið að standsetningu á í Reykjavík.

Lárus Ástmar Hannesson, formaður bæjarráðs Stykkishólms, hafði forgöngu um að málið var tekið upp á fundi bæjarráðs í síðustu viku.