„Fólki er frjálst að setja af stað undirskriftasafnanir eins og það vill um hin ýmsu málefni. Ég hef svo sem ekkert um það að segja,“ segir Vigdís Hauksdóttir , þingmaður Framsóknarflokksins, formaður fjárlaganefndar og á sæti í hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar, í Fréttablaðinu í dag um undirskriftarsöfnun sem hafin er á vefnum þar sem skorað er á hana að segja af sér formennsku í fjárlaganefnd. Tilefni undirskriftarsöfnunarinnar eru ummæli Vigdísar í þættinum Ísland í bítíð í gærmorgun sem sumir fullyrða að hafi verið hótun um að niðurskurð hjá RÚV vegna fréttaflutnings sem hún taldi rangan. Í gærkvöldi höfðu rúmlega 1.500 manns skrifað undir áskorunina.

Í Fréttablaðinu segir Vigdís:

„Ég var ekki að hóta í þessu viðtali, eins og allir geta hlustað á og heyrt. [...] Þetta kemur fréttaflutningi ekkert við. Upphafið að þessu viðtali var það að Ríkissjónvarpið flutti ranga frétt þar sem mér voru lögð orð í munn. Síðan hefur þetta undið upp á sig með þessum hætti og við því er ekkert að gera. Það er ekkert nýtt fyrir mér að það sé verið að rangtúlka það sem ég segi og snúa út úr því.“