Bæjarráð Hafnarfjarðar samþykkti á fundi í dag að leggja fram áskorun til Alþingis um að tryggingagjald fyrir árið 2016 verði lækkað verulega umfram það sem gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu.

Fram kemur á minnisblaði sem lagt var fyrir á fundinum að tryggingargjaldið var 5,34% fyrir hrun en það var hækkað í 7% árið 2009, en þá mældist atvinnuleysi 8%. Tryggingargjaldið stendur í dag í 7,49% og mun lækka í 7,35% samkvæmt núverandi fjárlagafrumvarpi, atvinnuleysi mælist nú 3,1%.

Rósa Guðbjartsdóttir, formaður bæjarráðs, segir að Hafnarfjarðarbær muni greiða um 670 milljónir í tryggingargjald árið 2015 en þessi fjárhæð væri um 478 milljónir ef tryggingargjald væri óbreytt frá því fyrir hrun. Munurinn er um 192 milljónir króna.

„Eins og fram kemur í minnisblaðinu  varði ríkið  um 28 milljörðum króna til atvinnutryggingarsjóðs þegar hæst lét árið 2010 og þá nam atvinnuleysið 8,1%. Í fjárlögum 2016 er gert ráð fyrir að atvinnuleysisbætur hækki um 9,4% á milli ára og að ríkið verji um 13,3 milljörðum til atvinnuleysistryggingarsjóðs.„  sagði Rósa Guðbjartsdóttir á bæjarráðsfundi í dag.