Ólafur Kristinsson, hdl. og fyrrverandi hluthafi í Landsbanka Íslands og Straumi Burðarási, skorar á Björgólf Thor að stíga fram og svara því hvort hann telji lánveitingar hans, sem nemi líklega um 50% af CAD eigin fé bankans, hafi verið lögmætar. Í aðsendri grein í Fréttablaðinu í dag skorar Ólafur einnig á Björgólf að bæta skaða hluthafa Landsbankans með því að leggja fram eign sína í Actavis. „Þannig væri hugsanlega hægt að ná sátt í málinu og forðast aðkomu dómstóla,“ segir Ólafur.

Ólafur skrifaði nýlega grein í Viðskiptablaðið sem fjallaði um eignarhald og lánveitingar Björgólfs Thors Björgólfssonar í Landsbanka Íslands. Í greininni í Fréttablaðinu í dag segir Ólafur að á annað hundrað manns hafi lýst áhuga sínum á að að hefja undirbúning á skaðabótamáli á hendur Björgólfi.

„Ég var hluthafi í LÍ og tapaði fjármunum á falli hans líkt og hinir 27.000 hluthafar bankans. Í grein minni rakti ég þau sjónarmið mín að ég teldi ýmislegt benda til þess að Björgólfur Thor hafi beitt hluthafa bankans blekkingum, í því skyni að komast hjá því að vera skilgreindur venslaður aðili í bankanum. Þannig hafi lánveitingar til hans og tengdra aðila í raun verið langt umfram lögbundnar heimildir. Á annað hundrað manns hafa lýst yfir áhuga sínum á því að hefja undirbúning á skaðabótamáli á hendur Björgólfi Thor,“ segir í greininni.

„Ég skora á Björgólf Thor að stíga fram og svara því hvort hann telji að lánveitingar hans, sem nema líklega um 50% af CAD eigin fé bankans, hafi verið lögmætar og hvort hann telji eðlilegt að eignarhald starfsmanna hafi verið honum ótengt. Með sama hætti er nauðsynlegt að upplýst verði með fullnægjandi hætti hvernig eignar­haldi samstarfsmanna Björgólfs í LÍ var raunverulega háttað, þ.m.t. hverjir þessir samstarfsmenn voru og hver fjármagnaði bréfin. Áskorun mín til Björgólfs er einnig sú að hann hafi frumkvæði að því að bæta skaða hluthafa bankans með því að leggja fram eign sína í Actavis. Þannig væri hugsanlega hægt að ná sátt í málinu og forðast aðkomu dómstóla.“

Greinina í heild má lesa hér .